Eftir að stjórnarandstaðan náði meirihluta á þingi árið 2017, skipaði Maduro nýtt þing, stjórnlagaþing, og færði flest völd gamla þingsins yfir á það. Hann sór embættiseið í byrjun ársins eftir kosningar sem stjórnarandstaðan viðurkenndi ekki og eftirlitsaðilar segja ekki hafa farið rétt fram. Í kjölfar þess lýsti gamla þingið Guaidó starfandi forseta Venesúela.
Á mótmælum í Caracas í gær sagði Guaidó að hann væri réttmætur forseti og valdtaka hans væri eina leiðin til að binda endi á einræði Maduro. Stjórnarskrá Venesúela veitti honum heimild til að mynda bráðabirgða ríkisstjórn og boða til nýrra kosninga.
Hann sagðist vita að yfirlýsing sín myndi hafa afleiðingar og er nú kominn í felur en samkvæmt AP fréttaveitunni er talið að til standi að handtaka hann.
Í kjölfarið lýsti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, yfir stuðningi við Guaidó.
Ekkert útlit er fyrir að her landsins verði við ákalli Trump og Guaidó og hjálpi stjórnarandstöðunni að velta Maduro úr sessi, enn sem komið er. Fáir búast við því að hershöfðingjar landsins muni snúast gegn Maduro en hið sama gæti ekki átt við óbreytta hermenn Venesúela.
Eftir mótmælin í gær segir Reuters að Guaidó og stjórnarandstæðan ætli að reyna að viðhalda þrýstingi á Maduro og ríkisstjórn hans.
Bandaríkin, Kanada, nokkur Suður-Ameríkuríki og nokkur ríki Evrópu hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó.
Ríkisstjórnir Rússlands, Kína, Íran, Sýrlands og Tyrklands, svo einhverjar séu nefndar, hafa hins vegar lýst yfir stuðningi við Maduro og ríkisstjórn hans. Rússar hafa selt Venesúela vopn og veitt ríkisstjórn Maduro lán á undanförnum árum. Þá hafa Kínverjar einnig lánað Venesúela umtalsverðar upphæðir og fjárfest í landinu.
Trump sagði í gær að Bandaríkin myndu beita öllum þeim efnahagslega og pólitíska þrýstingi sem þeir gætu til að styðja við bakið á Guaidó. Hann sagðist ekki vera að íhuga hernaðaríhlutun en sagði alla möguleika á borðinu.
Í kjölfarið lýsti Maduro því yfir að Venesúela ætlaði að slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin og gaf hann erindrekum Bandaríkjanna þrjá sólarhringa til að yfirgefa landið.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hann sagði að Bandaríkin myndu ekki verða við því. Stjórnmálasamband ríkjanna yrði áfram virkt í gegnum ríkisstjórn Guaidó. Pompeo sagði Bandaríkin ekki viðurkenna Maduro sem forseta Venesúela og því gæti hann ekki slitið samskiptum ríkjanna.
U.S. will conduct diplomatic relations with #Venezuela through the government of interim President Guaido. U.S. does not recognize the #Maduro regime. U.S. does not consider former president Maduro to have the legal authority to break diplomatic relations. https://t.co/DBS4GiGEWIpic.twitter.com/gQZJuS1xfn
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) January 24, 2019