Tryggvi hefur búið á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli síðastliðin 11 ár, þar sem hann hefur notið þjónustu og haldið heimili.
Hann þurfti að fara í aðgerð á Landspítalanum í lok árs 2017 en hefur ekki átti afturkvæmt heim til sín vegna andmæla starfsfólks Kirkjuhvols og hefur því búið á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi í rúmt ár.
Tilbúinn til útskriftar í tæpt ár
Samkvæmt læknum Tryggva hefur hann verið tilbúinn til útskriftar frá því 27. mars 2018. Ekki hefur fundist lausn á húsnæðismálum Tryggva en hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli hefur ekki tekist að undirbúa heimkomu hans á þeim átta mánuðum sem liðnir eru frá því að aðgerðaráætlun var sett þar í framkvæmd til að undirbúa heimkomu hans.Tíminn sem Tryggvi er búinn að vera „gísl“ á Lungnadeildinni, eins og stuðningsfólk hans lítur á málið, er orðinn lengri en allur tíminn sem hann var á gjörgæslu og Grensás eftir sviplegt slys á hestbaki þar sem Tryggvi lamaðist frá hálsi.
Nú hefur stuðningshópur Tryggva sett á laggirnar undirskriftalista þar sem skorað er á sveitarstjóra Rangárþings eystra og ráðherra heilbrigðisráðuneytis að finna lausn á búsetuúrræðum fyrir Tryggva og leysa þar með það brýna mál að búa Tryggva Ingólfssyni heimili heima í héraði þar sem þolmörk Tryggva og fjölskyldu hans eru komin á endastöð. Það er mat stuðningshópsins að sveitastjórn og ráðuneyti sé búið að þverbrjóta á réttindum Tryggva, en hann hefur verið útskriftarhæfur af Lungadeild Landsspítalans frá því í apríl 2018 samkvæmt vottorði dags. 27 mars 2018 af Þorgeiri Orra Harðarsyni lækni.

„Við teljum brotið á mannréttindum Tryggva og gerum þá kröfu til sveitarstjóra Rangárþings eystra og heilbrigðisráðuneytis að fara eftir lögum og greiða götu Tryggva aftur heim og það sem allra fyrst,“ segir Svandís Þórhallsdóttir, sem er ein af þeim sem stendur fyrir undirskriftarlistanum.
Undirskriftarlistinn þar sem skorað er á sveitarstjóra Rangárþings eystra og ráðherra heilbrigðisráðuneytis um að finna lausn á búsetuúrræðum fyrir Tryggva.