Erlent

Vill milljónir í bætur eftir byltu í brekkunni með Gwyneth Paltrow

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögfræðingar Gwyneth Paltrow þræta ekki fyrir að slysið hafi átt sér stað.
Lögfræðingar Gwyneth Paltrow þræta ekki fyrir að slysið hafi átt sér stað. Vísir/Getty
72 ára gamall bandarískur sjóntækjafræðingur hefur lögsótt Hollywood-leikkonuna Gwyneth Paltrow vegna skíðaslyss sem hann varð fyrir árið 2016. Hann sakar leikkonuna um að hafa skíðað á hann og brunað í burtu án þess að athuga með meiðsli hans.

Terry Sanderson var ásamt skíðafélögum sínum í Deer Valley skíðamiðstöðinni í Utah-ríki Bandaríkjanna þann 26. febrúar 2016. Washington Post fjallar um lögsóknina en alls krefst Sanderson 3,1 milljón dollara í bætur vegna þess skaða sem hann varð fyrir, um 370 milljóna króna, frá Paltrow, skíðakennara hennar og skíðamiðstöðinni.

Sanderson hélt blaðamannafund í gær þar sem hann kynnti efni lögsóknarinnar. Þar lýsti hann atvikinu.

„Allt í einu heyrði ég brjálæðislegt öskur, eitthvað sem maður heyrir aldrei í brekkunum,“ en Sanderson er reyndur skíðaiðkandi.

Skyndilega hafi einhver klesst harkalega á hann aftan frá en við áreksturinn brotnuðu fjögur rifbein Sanderson auk þess sem hann hlaut talsverða höfuðáverka.

Lögfræðingar hennar segja að hann sé sökudólgurinn

Craig Ramon, skíðafélagi Sanderson segist hafa orðið vitni að árekstrinum og að að Hollywood-leikkonan Paltrow hafi skíðað beint aftan á Sanderson. Skíðakennari hennar hafi hjálpað Sanderson og Paltrow á fætur eftir að hafa öskrað á Sanderson og sakað hann um að hafa orsakað áreksturinn.

Í lögsókninni er því einnig haldið fram að Paltrow hafi ekki athugað með meiðsli Sanderson og síðan skíðað í burtu eftir að hún komst á fætur. Ramon segir að það hafi verið greinilegt að Sanderson hafi verið sárþjáður.

Lögfræðingar Sanderson segja hann hlotið áverka á heila og langtímaáhrif þeirra geti falið í sér tap á skammtímaminni, persónuleikabreytingar sem og erfiðleika með að rata, sem réttlæti skaðabótakröfuna.

Lögfræðingar á vegum Paltrow þræta ekki fyrir að áreksturinn hafi átt sér stað en segja að það hafi verið Sanderson sem hafi skíðað á hana, en ekki öfugt, því sé lögsóknin fjarstæðukennd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×