Innlent

Aftur fyrir Hæstarétt með mál sitt

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Dr. Waney Squier bar vitni í héraðsdómi 2014.
Dr. Waney Squier bar vitni í héraðsdómi 2014. Fréttablaðið/ERNIR
Sigurður Guðmundsson sem var dæmdur fyrir manndráp af gáleysi árið 2003 fær annað tækifæri í Hæstarétti í dag þegar mál hans verður munnlega flutt þar í annað sinn.

Sigurður fékk 18 mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa hrist 9 mánaða gamlan dreng, sem hann hafði í daggæslu, með þeim afleiðingum að drengurinn lést. Fallist var á endurupptöku málsins árið 2015 og vó þar þyngst matsgerð bresks sérfræðings, dr. Waney Squier, sem taldi dánarorsök drengsins óljósa og engin ótvíræð gögn liggja fyrir um högg eða önnur merki um áverka sem hefðu getað orsakast af harkalegum hristingi.

Deilt hefur verið um svokallað Shaken baby heilkenni í fræðasamfélaginu lengi. Þar fer dr. Squier fremst í flokki meðal efasemdamanna. Hún er ekki óumdeild en hún var svipt lækningaleyfi í Bretlandi árið 2016 vegna meints misvísandi og óheiðarlegs vitnisburðar um dauðsföll barna fyrir breskum dómstólum. Hún endurheimti leyfið síðar sama ár en var meinað að bera vitni sem sérfræðingur fyrir breskum dómstólum í þrjú ár.

„Allt virðist þetta vera sett fram í þeim eina tilgangi að rökstyðja þá trú dr. Waney Squier að svokallað Shaken baby syndrome sé ekki til,“ segir meðal annars í greinargerð ákæruvaldsins sem fer fram á frávísun málsins.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×