Pólskur karlmaður, Kamil Piotr Wyszpolski, sem brotist hefur inn í hús austanlands sem vestan hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir þrjú innbrot á Austfjörðum sumarið 2018 auk fleiri brota. Wyszpolski var í félagi við föður sinn á Austfjörðum síðastliðið sumar. Eitt innbrotið heppnaðist ekki en lauk með því að Wyszpolski kýldi húsráðanda áður en hann flúði af vettvangi.
Wyszpolski virðist stunda það að fara inn í ólæst hús og stela því sem virði þykir. Voru íbúar á Austurlandi hvattir til að læsa húsum sínum síðastliðið sumar og hjálpast að við nágrannavörslu.
Landsréttur staðfesti í dag átján mánaða dóm úr Héraðsdómi Suðurlands frá því í september og má segja dóminn sögulegan. Hann hefur nú hlotið dóm í átta löndum fyrir afbrot frá árinu 2008. Hefur hann verið dæmdur í Noregi, Austurríki, Þýskalandi, Danmörku, Lúxemborg, Svíþjóð, Póllandi og nú Íslandi.
Innbrot mannsins á Íslandi síðastliðið sumar vöktu þónokkra athygli og fóru sérstaklega ekki fram hjá íbúum á Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík. Var það 26. júní sem íbúi á Fáskrúðsfirði kom að öðrum mannanna í íbúð sinni. Kýldi Wyszpolski íbúann í kvðinn og flúði í framhaldinu á bíl með föður sínum á ofsaferð.
Brot mannsins eru af alls kyns toga. Þjófnaður í flestum tilfellum en einnig fíkniefnalagabrot, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Wyszpolski játaði brot sín en áfrýjaði dómnum þar sem hann vildi freysta þess að fá mildari dóm og meiri frádrátt á gæsluvarðhaldi. Staðfesti Landsréttur dóminn að öðru leyti en því að gæsluvarðhald samfleytt frá 31. ágúst skuli draga frá refsingu hans.
