Fundur í kjaraviðræðum SA við Eflingu, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur fór fram hjá ríkissáttasemjara í morgun.
Spurður út í tímaramma viðræðnanna segir Halldór að honum finnist ekki skynsamlegt að setja einhver tímamörk sem síðan geti flækst fyrir síðar. Það sé þó mikilvægt að greiða úr málum á sem skemmstum tíma.
„Við kjarasamningsgerð verður að taka mið af því hvar hagkerfið er statt“
„Við sjáum það í tilkynningu Seðlabankans í morgun að hagkerfið er að skipta mjög hratt um takt og hagvöxtur á mann er orðinn neikvæður. Það eru sannarlega blikur á lofti í efnahagslífinu og við kjarasamningsgerð verður að taka mið af því hvar hagkerfið er statt. Ég ítreka þau skilaboð mín hér,“ segir Halldór Benjamín í samtali við Vísi.Aðspurður hvort að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af verkföllum og launahækkunum langt umfram svigrúm, svo vísað sé í orð seðlabankastjóra, segir Halldór Benjamín fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur.
Verkföll valdi gríðarlegu efnahagslegu tjóni og skapi allra tap í samfélaginu. Ómögulegt sé þó að segja til um hvort að það komi til verkfalla.
Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á aðkomu stjórnvalda í kjaraviðræðunum. Halldór Benjamín segir að samningsaðilum beri fyrst og fremst að leysa úr sínum ágreiningsefnum við samningaborðið.
„Stjórnvöld hafa gefið út að aðkoma þeirra er skilyrt því að skynsamir kjarasamningar náist. Það finnst mér skynsamleg afstaða hjá stjórnvöldum en fyrst og fremst ber samningsaðilum að leysa úr sínum ágreiningsefnum við samningaborðið. Það gæti skapað forsendu fyrir aðkomu ríkisvaldsins.“