Fótbolti

Verður Messi „leynigestur“ á móti Real Madrid í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi mun hita upp í kvöld en mun hann spila?
Lionel Messi mun hita upp í kvöld en mun hann spila? Getty/Jeroen Meuwsen
Lionel Messi meiddist í síðasta leik Barcelona liðsins og átti af þeim sökum að missa af undanúrslitaleik spænska bikarsins í kvöld.

Barcelona mætir þar Real Madrid og er þetta fyrri leikur liðanna. Þetta er heimaleikur Barcelona og liðinu því afar mikilvægur í þessu einvígi sínu við Real Madrid.

 



Flestum að óvörum þá valdi Ernesto Valverde, þjálfaru Barcelona, Lionel Messi hins vegar í leikmannahóp kvöldsins þrátt fyrir meiðslin.

Messi meiddist aftan í læri í jafnteflinu á móti Valencia á laugardaginn en argentínski snillingurinn var mættur á æfingu Barcelona liðsins í gær.

„Það er rétt að stundum efumst við um leikmenn og bíðum þá fram á síðustu stundu. Það er einnig þannig með Messi,“ sagði Ernesto Valverde.





Real Madrid getur því ekki alveg hætt að hugsa um Lionel Messi en það efast enginn um það að það er dálítið öðruvísi að mæta Barcelona með Messi eða án hans.

Þrátt fyrir hrakfaraspár eftir leik helgarinnar þá gæti Messi verið hálfgerður „leynigestur“ í leiknum á móti Real Madrid í kvöld. Hver veit nema að hann komi inn á völlinn í seinni hálfleik og geri Real liðinu grikk.

Hann skipti reyndar ekki miklu máli í deildarleik liðanna fyrir áramót þegar Lionel Messi var einnig frá vegna meiðsla en Barcelona vann erkifjendur sína engu að síður 5-1 þar sem Luis Suarez skoraði þrennu.





Það er líka nóg af mikilvægum leikjum á næstunni, bæði í deild og svo í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem Barcelona mætir Lyon. Skynsamlegt væri því að gefa Messi meiri tíma til að jafna sig en leikir við Real Madrid eru samt alltaf „leikirnir“ fyrir Barca.

Það er ekki eins og Lionel Messi fái fleiri tækifæri til að mæta Real Madrid því leikurinn í kvöld er sá fyrsti af þremur leikjum liðanna á næstu 25 dögum.

Seinni undanúrslitaleikurinn í bikarnum fer fram 27. febrúar og liðin mætast síðan í deildinni 2. mars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×