Miklar annir hafa verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er kvöldi en samkvæmt dagbók Lögreglu höfðu 55 verkefni komið á borð lögreglu laust fyrir klukkan 23:00.
Tveir aðilar voru handteknir á Hringbraut í vesturbæ Reykjavíkur,rétt fyrir klukkan 18:00 á stolnu ökutæki. Reyndust þeir einnig vera undir áhrifum lyfja og fíkniefna.
Þá lá grunur um ölvaðan ökumann á ferðinni í Hafnarfirði og var hann handtekinn klukkan 19:20. Eins og Vísir greindi frá fyrr í kvöld var tilkynnt um vopnað rán í úthverfi Reykjavíkur í kvöld og gistir hinn handtekni nú fangageymslur.
Einnig barst lögreglu tilkynning um ljóslausa bifreið á Vesturlandsvegi í átt að Reykjavík. Litlu mátti muna að ekið væri aftan á ljóslausu bifreiðina og vill lögregla vekja athygli ökumanna á því að tryggja að ökuljós logi við akstur.
Miklar annir hjá lögreglu það sem af er kvöldi
Andri Eysteinsson skrifar
