Í myndbandi af tónleikunum sést þegar neisti frá eldvörpu á sviðinu lenti í hári gítarleikarans þegar ábreiðuhljómsveit hans hóf að leika lagið Detroit Rock City eftir rokkgoðsagnirnar í Kiss með þeim afleiðingum að höfuð Jensen stóð í ljósum logum.
Annar hljómsveitarmeðlimur gerði heiðarlega tilraun til þess að slökkva eldinn í hári gítarleikarans en allt kom fyrir ekki. Hann kallaði þá á hjálp og tveir tónleikastarfsmenn komu aðvífandi en þeim tókst með samvinnuátaki að slökkva bálið.
„Mér er alveg sama þótt það kvikni aðeins í mér, það er bara hluti af fjörinu,“ sagði Jensen í samtali við rokk-vefsíðuna UCR.
„Ég vissi strax að það væri kviknað í mér, og þetta er ekki hárkolla heldur alvöru hárið mitt. Það var mjög fínt og púffað fyrir tónleikana en núna er ég mun líkari Alice Cooper.“
Jensen sagðist aldrei hafa lent í neinu þessu líku á meira en 15 ára rokkferli sínum.
„En maður býr sig alltaf undir eitthvað svona. Þess vegna sáuð þið mig ekki missa það, Ég hef fulla trú á mínum mönnum og vissi að einhver kæmi og gæti slökkt í mér. Þannig ég hugsaði bara með mér að ég ætlaði að syngja fyrir fólkið á meðan eldurinn logaði.“