Fótbolti

Luis Suarez bauð upp á smá „hefnd“ fyrir Liverpool á Bernabéu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos og aðrir hjá Real Madrid horfa upp á Luis Suarez skora með Panenka vítaspyrnu.
Sergio Ramos og aðrir hjá Real Madrid horfa upp á Luis Suarez skora með Panenka vítaspyrnu. Getty/David Ramos
Luis Suarez er fyrrum hetja Liverpool liðsins og Real Madrid fyrirliðinn Sergio Ramos er meðal óvinsælustu leikmanna mótherja Liverpool eftir meðferð hans á Mohamed Salah í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðasta vor.

Það má kannski segja að Luis Suarez hafi ekki aðeins séð til þess að Barcelona komst í úrslitaleik spænska bikarsins í gærkvöldi heldur kom hann fram smá hefndum fyrir Liverpool.

Sergio Ramos hefur stundað það á þessu tímabili að skora með svokölluðum Panenka vítaspyrnum.

Ramos fékk ekki tækifæri til þess í gærkvöldi en þurfti þess í stað að horfa upp á Suarez innsigla sigur Barcelona með því að skora með Panenka vítaspyrnu, fyrir framan Sergio Ramos og alla aðra á Santiago Bernabéu, heimavelli Real Madrid.





Barcelona vann undanúrslitaleikinn 3-0 og þar með samanlagt 4-1. Þetta var annað mark Luis Suarez í leiknum en þriðja markið var sjálfsmark franska miðvarðarins Raphaël Varane.

Luis Suarez hafði fyrr í vetur skorað þrennu í 5-1 sigri Barcelona á Real Madrid í deildarleik liðanna á Nývangi.

Stuðningsmenn Liverpool sjá örugglega þarna tækifæri til að líta á frammistöðu Úrúgvæmannsins á móti Real Madrid í vetur sem smá „hefnd“ fyrir ósanngjarna meðferð í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í maí.

Í það minnsta sofnaði Sergio Ramos örugglega mjög seint eftir báða þessa leiki og fékk meira að segja nýjan stjóra eftir skellinn fyrr í vetur.

Barcelona setti með þessu nýtt met með því að komast í úrslitaleik spænska bikarsins sjötta árið í röð.

Real Madrid þarf þó ekki að bíða lengi eftir tækifæri til að bæta fyrir tapið í gær því Sergio Ramos og félagar í Real taka aftur á móti Barcelona á Santiago Bernabéu á laugardaginn en þá í spænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×