Erlent

Þrýstingur á Maduro eykst

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Frá landamærum Venesúela að Kólumbíu á laugardaginn.
Frá landamærum Venesúela að Kólumbíu á laugardaginn. Nordicphotos/Getty
Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, kallaði eftir því í gær að alþjóðasamfélagið grípi til allra hugsanlegra aðgerða til að koma sitjandi forseta landsins, Nicolas Maduro, frá völdum.

Guaidó lét ummælin falla eftir að til blóðugra átaka kom á landamærum Venesúlea að Kólumbíu og Brasilíu á laugardaginn. Stjórnarandstæðingar freistuðu þess að koma neyðargögnum inn í landið en þegar þeir freistuðu þess að fara yfir landamærin brutust út átök milli þeirra og öryggissveita. Tveir létu lífið, þar á meðal 14 ára gamall drengur, og fjöldi særðist að sögn mannréttindasamtaka í Venesúela. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að sömu samtök fullyrði að eldur hafi verið borinn að neyðargögnum sem biðu þess að komast í hendur óbreyttra borgara í landinu.

Ljóst er að atburðir helgarinnar eru aðeins til þess fallnir að auka þrýsting á Maduro forseta. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmdu aðgerðir venesúelsku stjórnarinnar.

Í sama streng tók Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í gær: „Við höfnum því alfarið að vopnaðar sveitir séu notaðar til að ógna óbreyttum borgurum og kjörnum fulltrúum sem hafa beitt sér fyrir því að neyðargögn komist inn í landið.“

Yfir 50 lönd hafa lýst stuðningi við Juan Guaidó en hann tilkynnti í síðasta mánuði að hann væri tímabundinn forseti Venesúela. Guaidó er forseti venesúelska þingsins, en samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá landsins getur þingforseti gengið í störf forseta í fjarveru sitjandi forseta. Stjórnarandstaðan telur þetta ákvæði í gildi þar sem verulegir annmarkar hafi verið á síðustu kosningum.

Guaidó hefur tilkynnt að hann muni sitja fund leiðtoga í rómönsku Ameríku í Bógóta í Kólumbíu í dag, þrátt fyrir að Maduro hafi sett hann í farbann.


Tengdar fréttir

Brenndu hjálpargögn og skutu á mótmælendur

Hermenn hliðhollir Nicolas Maduro, forseta Venesúela, beittu valdi til að reka bílalestir með hjálpargögn frá landamærum ríkisins og Kólumbíu í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×