Daniel Ortega, forseti Níkaragva, hefur sagst reiðubúinn til viðræðna við stjórnarandstöðuna í landinu til að ná lausn landvarandi og hatrömmum deilum í landinu.
Tugþúsundir hafa mótmælt stjórn Ortega á götum úti síðustu mánuðina þar sem um 320 manns hafa fallið í átökum við lögreglu.
Ortega vonast til að viðræður hefjist á miðvikudaginn í næstu viku, en stjórnarandstaðan hefur krafist afsagnar forsetans.
Staða efnahagsmála í Níkaragva er mjög slæm og hefur ríkisstjórnin átt í miklum vandræðum með fjármögnun hins opinbera eftir að alþjóðlegar stofnanir og bankar hafa lokað á styrki og lán til stjórnarinnar.
Sjá einnig:Byltingarleiðtogi sagður verða að einræðisherranum sem hann steypti
Mótmælin í landinu blossuðu upp í apríl á síðasta ári og beindust til að byrja með að fyrirhuguðum breytingum ríkisstjórnarinnar á lífeyriskerfi landsins.
Stjórnarandstaðan í Níkaragva hefur sakað uppreisnarleiðtogann fyrrverandi, Daniel Ortega forseta, um að vera spilltur einræðisherra sem stýri landinu eftir eigin hentisemi ásamt eiginkonu sinni og varaforseta, Rosario Murillo.
