Finnur Jónsson var að vonum ósáttur eftir tap gegn Val í kvöld og fór ekki fögrum orðum um frammistöðu sinna manna enda situr Skallagrímur núna kyrfilega í fallsætinu.
„Þetta er bara hundfúlt. Það er eins og menn hafi sofnað í seinni hálfleik og það grátlega við þetta er að við getum ekki drullast til að sýna pínu hjarta, allir sem einn. Við vorum eins og flatir aumingjar í byrjun seinni hálfleiks ef við tölum bara íslensku.“
Skallagrímsmenn máttu alls ekki við þessum ósigri í kvöld og eru núna endanlega komnir í fallsætið í úrvalsdeild karla. Í leik við Val sem var vissulega upp á líf og dauða í úrvalsdeildinni þá töpuðu Borgnesingar með 23 stigum og virtust andlausir seinustu 10 mínútur leiksins.
„Það er bara mjög sorglegt miðað við stöðuna sem við vorum í að leyfa sér að mæta svona í þennan leik,“ sagði Finnur um liðið sitt að leik loknum.
Skallagrímur mun þá spila í 1. deild karla næsta tímabil en Finnur vill ekki hugsa svo langt alveg strax: „Við eigum eftir tvo leiki í þessari deild og við ætlum að reyna að gera okkar allra besta þar. Seinustu leikirnir verða bara upp á stoltið og að reyna að verða betri í þessari íþrótt. Það er drullufúlt að koma hérna og sýna svona frammistöðu í dag.“
