Erlent

Þingið fellir líklega neyðarástand Trump úr gildi

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Donald Trump hlýtur kynningu frá landamæraeftirliti Bandaríkjanna um eiturlyfjasmygl á landamærunum.
Donald Trump hlýtur kynningu frá landamæraeftirliti Bandaríkjanna um eiturlyfjasmygl á landamærunum. Getty/Al Drago
Bandaríkjaþing mun að öllum líkindum fella úr gildi neyðarástand sem Donald Trump forseti lýsti yfir á landamærunum að Mexíkó. Verði tillagan samþykkt er líklegt að Trump beiti neitunarvaldi í fyrsta skipti frá því hann tók við embætti. 

Fulltrúadeildin, þar sem Demókratar eru með meirihluta, hafa þegar samþykkt að fella úr gildi neyðarástandið. Atkvæði verða greidd um tillöguna í öldungadeildinni síðar í dag. Fimm öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst því yfir að þeir ætli að greiða atkvæði með ályktuninni. Forsetinn hefur hótað því að beita neitunarvaldi sínu verði ályktunin samþykkt.

Trump lýsti yfir neyðarástandi á landamærunum 15. febrúar eftir að Bandaríkjaþing neitaði honum fjármagni í landamæramúrinn sem hann vill reisa. Neyðarástandinu var ætlað að gera forsetanum kleift að ráðstafa fjármunum í múrinn án samþykkis þingsins. 

Þingið getur ógilt neitunarvald forseta en til þess þarf tvo þriðju hluta atkvæða í báðum deildum þingsins. Afar ólíklegt er að slíkur meirihluti sé til staðar í öldungadeildinni þar sem Repúblikanar eru með meirihluta.

Standi neyðarástandið áfram mun Trump geta notað fjármagn sem ætlað er hernaðarmálum og tekið þaðan allt að 8 milljarða Bandaríkjadala. Nokkur ríki Bandaríkjanna hafa kært neyðaryfirlýsinguna til dómstóla sem eiga enn eftir að taka afstöðu til þess hvort það samræmist stjórnarskrá Bandaríkjanna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×