Erlent

Ekkert þokast í Brexit-viðræðum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Theresa May forsætisráðherra.
Theresa May forsætisráðherra. Chris J Ratcliffe/Getty
Ekkert þokast í viðræðum Breta og Evrópusambandsins hvað varðar Brexit en á morgun eiga þingmenn á breska þinginu að kjósa á ný um samning Theresu May forsætisráðherra um útgöngu úr sambandinu.

Samningamenn Breta og ESB ræddust við alla helgina og í gærkvöldi ræddi May við Jean Claude-Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Í framhaldi af því samtali kom tilkynning frá forsætisráðuneytinu þess efnis að ekkert hafi komið út úr viðræðunum.

Þó á að reyna til þrautuar og funda um málið í dag en allar líkur eru taldar á því að May tapi atkvæðagreiðslunni í þinginu á morgun, rétt eins og gerðist síðast þegar hún reyndi að sannfæra þingmenn um að samþykkja útgöngusamninginn.

Að öllu óbreyttu munu Bretar yfirgefa Evrópusambandið þann 29. mars næstkomandi, hvort sem tekist hafi að semja um útgönguna, eður ei. Enn stendur helsti ágreiningurinn um það hvernig haga skuli landamærunum á milli Írlands, sem verður eftir í ESB og Norður Írlands, sem tilheyrir Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×