Stjórnvöld í Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Barein, Katar, Kúveit og Íran fordæmdu í gær ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að viðurkenna fullveldi Ísraelsríkis yfir Gólanhæðum. Ísraelar innlimuðu Gólanhæðir árið 1981 eftir að þær unnust í stríði við Sýrland.
Samkvæmt Reuters telja Arabaríkin að Gólanhæðir séu hernumið arabískt svæði og að ákvörðun Trumps sé friðarspillir. Íranar tóku í sama streng og sögðu ákvörðun Trumps ekki eiga sér nein fordæmi á þessari öld.
Trump tísti um ákvörðunina í síðustu viku en skrifaði formlega undir yfirlýsingu þess efnis á mánudag. Með honum var Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sem var í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum.
Ríkisstjórn Bashars al-Assad í Sýrlandi er ekki hrifin af ákvörðun Trumps og sagði að um væri að ræða „árás“ á fullveldi Sýrlendinga.
