„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki ásættanlegt að stjórn og umráð yfir 40 prósent Íslands verði í höndum fárra aðila,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar sem leggst alfarið gegn stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
„Samráð um þann grundvallarþátt málsins, hvort stofna skuli þjóðgarð á miðhálendinu, hefur ekki átt sér stað,“ segir í bókuninni.
Að sögn sveitarstjórnarinnar er stöðugt vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga og þeim ekki treyst fyrir landsvæði innan eigin sveitarfélagsmarka.
„Í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á rekstur þjóðgarða á Íslandi má glöggt sjá að mjög víða er pottur brotinn til dæmis í viðhaldi vega, fráveitumálum og merkingum svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg stór verkefni sem útheimta mikið fjármagn bíða framkvæmda í þjóðgörðum landsins,“ segir sveitarstjórn Bláskógabyggðar.
„Verði miðhálendisþjóðgarður að veruleika má búast við að heimamenn dragi sig til hlés. Gera má ráð fyrir að öll sú vinna og fjármagn sem heimafólk hefur lagt til hálendisins muni færast yfir til ríkisins,“ heldur sveitarstjórnin áfram. „Í ljósi reynslunnar telur sveitarstjórn að þá muni þeim eignum sem áður voru í eigu og umsjá viðkomandi sveitarfélaga ekki verða viðhaldið og að endingu lokað.“
Á sama fundi samþykkti sveitarstjórnin framkvæmdir við sex fjallaskála þar sem bæta á við gistiplássi fyrir samtals 230 manns.
