Kröfuhafarnir hafa samþykkt að breyta skuldum í hlutafé upp á 49 prósent. Einhugur er á meðal þeirra að bjóða 51 prósenta hlut í félaginu fyrir 40 milljónir dollara, sem samsvarar um fimm milljörðum íslenskra króna.
Sjá einnig: Kröfuhafi í WOW hefur mikla trú á félaginu
Snorri segir að stóra spurningin sem standi eftir sé hversu hratt félaginu mun ganga að safna þessum fimm milljörðum sem vantar upp á.

„Það er búið að taka tvær vélar af þeim og þeir geta ekki flogið lengur til Gatwick. En maður vonar að þetta fari allt saman vel. Þetta er skref í áttina en það á alveg eftir að loka þessu. Stóra spursmálið er hvort þeim takist það, það yrði frábær árangur hjá þeim ef þeim tekst að ná í þessa fimm milljarða. Maður vonar að þeim takist það fyrir almannahag,“ segir Snorri.
Spurður hvar hægt sé að sækja fimm milljarða í dag í rekstur WOW þá býst hann við því að reynt verði að sækja þá erlendis. Hann segir það hafi ekki verið traustvekjandi að sjá hvað fjármunir úr skuldabréfaútboðinu entust stutt, staðan virtist mun verri en félagið gaf upp og langur tími samningaviðræðna við Indigo var ekki til þess fallinn að auka tiltrú.
„Manni finnst það ekki sérlega traustvekjandi,“ segir Snorri.
„Ég reikna með að það yrði leitað erlendis eftir fjármagni. Ég veit ekki hversu mikla lyst lífeyrissjóðirnir hafa á svona mikilli áhættufjárfestingu. Menn verða að vera alveg viðbúnir að tapa öllum fimm milljörðunum sem þeir leggja í þetta.“