Til stóð að halda kynningarfund um námskeið í vopnaburði, öryggisgæslu og skyldum verkefnum í dag. En það er öryggis- og herskólinn European Security Academy sem stendur fyrir námskeiðinu.
Kynningarfundurinn átti að fara fram á Grand Hotel í dag. Ekkert varð af fundinum þar sem Grand Hotel ákvað að þar skyldi hann ekki fara fram. Þetta staðfesti hótelstjóri Grand Hotels við fréttastofu í morgun en hún vildi ekki fara nánar út í ástæður ákvörðunarinnar.
Þegar í ljós kom kynningarfundinum hefði verið úthýst af hótelinu höfðu forsvarsmenn ESA samband við veitingastaðinn Sólon í Bankastræti, en staðurinn varð ekki við ósk þeirra. Hefur því fundinum verið frestað þar til rými finnst.

„Okkur finnst almennt séð vafasamt að einkaaðilar standi fyrir því senda Íslendinga í einhverja vopnaþjálfun í herskóla í Austur Evrópu í svona herlausu og friðsömu landi,“ sagði Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.
Bartosz Bryl Framkvæmdastjóri ESA er hissa á gagnrýni sem skólinn hefur fengið hérlendis. Hann segir slíka gagnrýni ekki á lofti í öðrum löndum.
„Sem framkvæmdastjóri félagsins er ég sármóðgaður eftir lestur blaðagreinar sem birtist um málið,“ sagði Bartosz Bryl, framkvæmdastjóri ESA.
Í umfjöllun Stundarinnar um málið kom fram að einhverjir vilji nýta sér fundinn til að verjast straumi innflytjenda sem hingað koma. Bart segir það alls ekki tilgang skólans.
„Nei, það er alls ekki rétt. ESA hefur ekkert með slíkt að gera,“ sagði Bartosz.
