Aðgerðir stjórnvalda á samningstímanum kosta 80 milljarða króna. Fjárfestingar ríkisins í vegum og öðrum innviðum eiga að skapa 300 störf í byggingariðnaði í ár og samtals 600 störf til ársins 2021.
Aðgerðir ríkisins snúa að skattalækkunum, húsnæðismálum og minnkun á vægi verðtryggingar.
Ríkisstjórnin bætir við fyrri hugmyndir sínar um skattalækkun hjá þeim tekjulægstu. Lækkunin nemur nú 10.000 krónum á mánuði.
Lækkun tekjuskatts og hækkun barnabóta geta aukið ráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu með tvö börn um allt að 411 þúsund krónur á ári. Það nemur tæpum 35.000 krónum á mánuði.
Breytingarnar auka ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með tvö börn um allt að 234 þúsund krónur á ári, tæpar 20.000 krónur á mánuði.
Fæðingarorlof verður lengt í tólf mánuði og hámarksgreiðslur hækkaðar úr 500 í 600 þúsund krónur.

Breytingar í húsnæðismálum
Aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum felast meðal annars í nýrri tegund húsnæðislána fyrir tekjulága. Þá verða 40 ára verðtryggð lán aflögð frá og með næstu áramótum. Endurskoða á útreikning húsnæðisliðs vísitölu neysluverðs fyrir lok júní á næsta ári.Þá verður heimild til ráðstöfunar séreignasparnaðar inn á íbúðalán framlengd í tvö ár. Leyfilegt verður að ráðstafa 3,5% af lífeyrisiðgjaldi skattfrjálst til húsnæðiskaupa.
Þannig getur fólk í sambúð sem er samtals með 650.000 krónur í mánaðarlaun nýtt ríflega 22.000 krónur á mánuði skattfrjálst í húsnæðiskostnað.
Fólk getur notað þá upphæð til að safna fyrir útborgun, lækka höfuðstól verðtryggðs lán eða til að lækka höfuðstól eða afborganir á óverðtryggðu láni.
Einstaklingur með 325.000 krónur á mánuði getur samkvæmt þessu ráðstafað rúmlega 11.000 krónum á mánuði skattfrjálst í húsnæðiskostnað.
Frekari tillögur stjórnvalda að breytingum í húsnæðismálum sem eiga að auðvelda fólki með lágar tekjur að eignast fasteign verða kynntar á morgun.