Verst er ástandið við veginn í landi Háafells og Fitja og sagði Ólafur Tryggvason, einn sumarhúsaeiganda í samtali við fréttastofu, að hvorki sumarhúsaeigendur né landeigandi hafi verið upplýstir um að Vegagerðin hafi ætlað að ráðast í slíkar framkvæmdir.
Ólafur segir að rétt sé að tré hafi vaxið inn á veginn á liðinum árum en að aldrei hafi Vegagerðin ráðist í að saga niður tré á svæðinu áður. Skógurinn er viðkvæmur og réttara hefði verið að bæði landeigandi og sumarhúsaeigendur hefðu verið upplýstir áður svo hægt hefði verið að gera ráðstafanir. Skógurinn er viðkvæm náttúruperla sem ber að ganga vel um.

Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi og Vestfjörðum staðfesti í samtali við fréttastofu að starfsmenn á vegum stofnunarinnar verið að verki. Hann hafi fengið upplýsingar um málið um nýliðna helgi og að málið væri til skoðunar. Hann gat ekki sagt til um hvort landeiganda eða sumarhúaeigendum hafi verið gert viðvart áður og hvort þeim hafi verið gefið tækifæri til þess að gera úrbætur en að það væri eitt af því sem væri til skoðunar. Hann sagði að þegar myndir sem voru teknar af skemmdum hafi verki starfsmanna Vegagerðarinnar ekki verið lokið. Hann sagði það vilja stofnunarinnar að leysa málið með sumarhúsa- og landeigendum.

