Fótbolti

Skoraði á móti United í gær en gæti endað þar í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Philippe Coutinho hlustar ekki á pirraða stuðningsmenn.
Philippe Coutinho hlustar ekki á pirraða stuðningsmenn. vísir/getty
Philippe Coutinho skoraði eitt af þremur mörkum Barcelona á móti Manchester United í gærkvöldi er Spánarmeistararnir afgreiddu United auðveldlega í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Nývangi.

Brasilíumaðurinn tók því virkan þátt í því að skella United í Meistaradeildinni en vel er mögulegt að Coutinho standi uppi sem leikmaður Manchester United fyrir næstu leiktíð en framtíð hans er í mikilli óvissu hjá Barcelona.

Coutinho á ekki fast sæti í liði Börsunga og kom inn af bekknum um síðustu helgi en byrjaði báða leikina á móti Manchester United. Hann er búinn að skora ellefu mörk og leggja upp önnur fimm í 47 leikjum í öllum keppnum.

Fram kemur í spænska íþróttablaðinu Sport í dag að umboðsmenn Coutinho, Kia Joorabchian og Giuliano Bertolucci, muni á næstu dögum hitta forráðamenn Katalóníurisans og ræða framtíð brasilíska landsliðsmannsins.

Auk Manchester United er Chelsea sagt áhugasamt um að kaupa hann en líklegt þykir að Eden Hazard kveðji Stamford Bridge í sumar.

Coutinho kunni vel við sig á England þar sem að hann skoraði 54 mörk og lagði upp 45 í 201 leik fyrir Liverpool áður en hann var seldur fyrir morðfjár til Barcelona.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×