Fótbolti

Stórt próf fyrir lærisveina Pep Guardiola í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sergio Aguero og Raheem Sterling fagna marki hjá Manchester City.
Sergio Aguero og Raheem Sterling fagna marki hjá Manchester City. Getty/Laurence Griffiths
Manchester City og Tottenham mætast í kvöld í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Tottenham leiðir 1-0 eftir fyrri leik liðanna og er einum leik frá því að komast í undanúrslitin í fyrsta sinn í sögu félagsins. Á sama tíma er Man­chester City einum leik frá því að komast í undanúrslitin í annað sinn í sögu félagsins.

Líkt og í ensku úrvalsdeildinni hefur Manchester City örlögin í eigin höndum þegar lokaspretturinn er að hefjast. Leikurinn fer fram á Etihad-vellinum í Manchester sem hefur verið vígi City-manna undanfarin ár. Síðan Crystal Palace vann óvætan sigur tveimur dögum fyrir jól hefur Manchester City leikið tólf leiki í öllum keppnum á heimavelli og eru tólf sigrar staðreynd.

Sergio Aguero reyndist Tottenham erfiður fyrstu ár Aguero á Englandi þegar hann skoraði tíu mörk í sjö en hann hefur ekki skorað í síðustu sjö leikjum gegn Tottenham.

Þetta er fyrri viðureign liðanna í þessari viku sem mætast á ný um helgina. Á einni viku mætir Manchester City því Tottenham tvisvar og á leik gegn Manchester United eftir viku.

„Ef við vinnum ekki þessa þrjá leiki þá erum við úr sögunni í tveimur keppnum. Þetta eru úrslitaleikir fyrir okkur en við erum bara að spila úrslitaleiki þessa dagana,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City í aðdraganda leiksins.

Tottenham leikur án Harry Kane eftir að Kane meiddist í fyrri leik liðanna en það ætti ekki að há Spurs. Tottenham vann fimm leiki af sjö þegar Kane var meiddur í byrjun árs og þekkir Mauricio Pochettino því vel að leggja upp leiki án síns helsta markaskorara.

Á sama tíma tekur Porto á móti Liverpool í Portúgal. Þegar þessi lið mættust á sama velli í fyrra vann Liverpool 5-0 sigur en Bítlaborgarmenn leiða 2-0 eftir fyrri leik liðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×