Forstjóri bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins PT Capital hafnar því að félagið eigi í viðræðum varðandi endurreisn WOW air. Greint var frá því í fréttum Ríkisútvarpsins um liðna helgi að Skúli Mogensen hefði átt fund með forsvarsmönnum félagsins um stofnun nýs lággjaldaflugfélags.
Forstjóri félagsins er Hugh Short en hann segir á Linkedin að PT Capital sé ekki í viðræðum varðandi endurreisn WOW air.
„Frásagnir íslenskra fjölmiðla eru rangar,“ segir Short á Linkedin.
PT Capital á hlut í KEA-hótelum og fjarskiptafyrirtækinu NOVA. Short hafði áður fjallað um fall WOW air á Linkedin-síðu sinni þar sem hann vísaði í stöðuuppfærslu forstjóra íslenska fyrirtækisins Gamma.
Velti Short því upp hvers vegna íslenska ríkið hefði ekki komið að rekstri WOW air og sagði áhrifin mikil fyrir íslenskt efnahagslíf. Vildi Short meina að koma hefði mátt í veg fyrir fall WOW air.
Forstjóri PT Capital neitar að vera í viðræðum um endurreisn WOW air

Tengdar fréttir

Skúli sagður hafa fundað með eigendum KEA-hótela
Einn af þeim er bandarísku fjárfestirinn sem velti fyrir sér hvers vegna yfirvöld komu ekki WOW til aðstoðar.