Skoðun

Fjárfestum í fólki

Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar
Veikindi tengd kulnun og streitu hafa aukist verulega á undanförnum árum með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Við þessu verður að bregðast með forvörnum og með því að tryggja fólki hvíld.

Fimmti hver starfsmaður í opinbera geiranum í Svíþjóð er með kulnunar- eða streitueinkenni. Hér á landi skortir yfirsýn en engin ástæða er til að ætla að aðstæður séu aðrar hér. Stóraukin ásókn sjúkrasjóði stéttarfélaga ber þess merki. Oftast má rekja kulnun og sjúklega streitu í starfi til aðstæðna á vinnustað þar sem álagið er of mikið og kröfur sem gerðar eru til starfsfólks eru óljósar. Algengt er að vaktavinnufólk treysti sér í ekki til að vinna fullt starf. Þar spilar líka inn í álag sem fylgir vaktavinnu. Þeir vinnustaðir sem tóku þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg og ríkinu hafa samhliða farið yfir stjórnun verkefna og tímastjórnun. Niðurstaðan er skýr – með styttingu vinnuvikunnar dregur úr streitueinkennum, einkennum kulnunar og almennt dregur úr veikindafjarveru. Þá á fólk auðveldara með að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf.

Á samanburðarvinnustöðum sem ekki hafa stytt vinnuvikuna upplifir fólk þvert á móti hvernig streita og einkenni kulnunar halda áfram að aukast á sama tíma og erfiðara er að samþætta fjölskyldulífið við vinnuna. Í heilbrigðiskerfinu byggir þjónustan á bestu mögulegu vísindarannsóknum. Hvers vegna ættum við ekki að gera sömu kröfur þegar kemur að starfsfólki og vinnuaðstöðu? Það þarf að tryggja starfsfólki aðstæður svo það geti unnið vinnuna sína og þannig hámarkað gæði þjónustunnar. Við eigum ekki að sætta okkur við vinnuumhverfi sem leiðir til veikinda fólks eða áralangrar óvinnufærni. Það hefur ekki eingöngu áhrif á einstaklinginn sem fyrir því verður heldur er það kostnaðarsamt fyrir vinnustaðinn og samfélagið allt.

Með því að grípa til viðeigandi forvarna og stytta vinnuvikuna axla atvinnurekendur ábyrgð á vandanum og stuðla að auknum lífsgæðum – öllum til heilla.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×