Iðnaðarmenn og Samtök atvinnulífsins munu funda stíft um helgina í húsakynnum ríkissáttasemjara til þess að landa nýjum kjarasamningi.
Fundur hófst hjá samninganefndunum klukkan 10 í dag og mun standa til klukkan 18 og þá hafa verið boðaðir jafnlangir fundir bæði laugardag og sunnudag.
„Við erum að reyna til þrautar núna að komast eins langt og mögulegt er. Ef við náum því ekki núna í dag eða um helgina þú munum við fara í atkvæðagreiðslur um verkföll. Það er sú staða sem er uppi og menn vilja komast eins langt og mögulegt er bara,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og talsmaður iðnaðarmanna, í samtali við Vísi.
Hann segir ekkert hægt að segja til um það núna hvort það náist lending í viðræðunum eða hvort iðnaðarmenn fari í verkföll. Það skýrist vonandi betur síðar í dag hvernig staðan er.
Aðspurður hvað iðnaðarmenn vilji fá sem liggi ekki beint við út frá Lífskjarasamningnum svokallaða sem VR og SGS samþykktu fyrr í vikunni segist Kristján Þórður ekki geta tjáð sig mikið um það.
„En við erum með sjálfstæða kjarasamninga og þurfum að ná breytingum á ákvæðum þar.“
Aðgerðaáætlun liggur fyrir hjá iðnaðarmönnum en hún hefur ekki verið opinberuð. Kristján segir að hún verði hins vegar opinberuð komi til þess að iðnaðarmenn grípi til aðgerða.
Spurður út í hvers konar aðgerðir séu í burðarliðnum segir hann:
„Mér finnst líklegt að það verði einhvers konar skærur til að byrja með.“
Fara í atkvæðagreiðslur um verkföll ef fundahöld helgarinnar skila ekki árangri
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
