Skoðun

Börn notuð sem barefli

Heimir Hilmarsson skrifar
Foreldraútilokun er það þegar barni er að ástæðulausu innrættar neikvæðar tilfinningar s.s. ótti, hatur og fyrirlitning í garð foreldris, oft í tengslum við forræðisdeilur. Barnið sýnir þá mjög sterka afstöðu með foreldrinu sem beitir útilokuninni en hafnar algerlega sambandi við hitt foreldrið.

Foreldraútilokun er andleg og tilfinningaleg misnotkun á barni sem veldur því langvarandi skaða. Það innrætir því sjálfsfyrirlitningu og eykur líkur á kvíða, þunglyndi, áhættuhegðun, fíknisjúkdómum og vandræðum í nánum samböndum síðar á lífsleiðinni.

Einnig má flokka foreldraúti­lokun sem fjölskylduofbeldi því tilgangur ofbeldisins er hefnd gagnvart fyrrverandi maka. Sem slíkt er þetta ofbeldi mjög áhrifaríkt, því það fer fram í skjóli þagnar og stuðnings samfélagsins. Annars vegar sér fólk ástríkt foreldri í góðu sambandi við barnið sitt og hins vegar foreldri sem barn hefur af einhverri ástæðu slitið öllu sambandi við.

Feður og mæður beita þessu ofbeldi í líkum mæli en mæður eru líklegri til að komast upp með að útiloka börnin sín en feður. Foreldrar sem beita börn sín og fyrrverandi maka þessu ofbeldi eiga oft við persónuleikaröskun að stríða s.s. jaðarpersónuleikaröskun, sjálfhverfu eða siðblindu.

Einstaklingar með persónuleikaraskanir af þessu tagi eiga oft mjög erfitt með að sjá eigin sök og eru afar tregir til að taka þátt í fjölskylduráðgjöf. Hætt er við að sáttamiðlun og samningar við slíka einstaklinga skili engu.

Skömm og þöggun eru bestu vinir þeirra sem beita ofbeldi. Þess vegna er mikilvægt að draga þessi ljótu fjölskylduleyndarmál upp á yfirborðið og ræða þau.

Á Facebook-síðu og heimasíðu Félags um foreldrajafnrétti má finna meiri fróðleik um foreldra­útilokun.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×