Kristín Örlygsdóttir er nýr formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur. Hún er fyrsta konan sem gegnir formannsembættinu í sögu deildarinnar.
Kristín tók við formannskeflinu af Friðriki Ragnarssyni á aukaaðalfundi körfuknattleiksdeildarinnar í gærkvöldi. Auk Friðriks gengu þau Páll Kristinsson, Jakob Hermannsson, Róbert Þór Guðnason og Berglind Kristjánsdóttir úr stjórn.
Brenton Birmingham, einn besti erlendi leikmaður sem hefur leikið hér á landi, er meðstjórnandi í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar.
Karlalið Njarðvíkur endaði í 2. sæti Domino's deildarinnar en féll úr leik fyrir ÍR, 3-2, í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar. Þá komust Njarðvíkingar í bikarúrslit þar sem þeir töpuðu fyrir Stjörnumönnum.
Kvennalið Njarðvíkur endaði í 4. sæti 1. deildar í vetur.
Fyrsta konan sem stýrir körfuknattleiksdeild Njarðvíkur
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
