Samtök herskárra íslamista úr röðum Palestínumann hefur í tilkynningu hótað Eurovision-söngvakeppninni að sögn Jerusalem Post. Aðstandendur keppninnar segja að hún haldi áfram samkvæmt áætlun.
„Öryggi er alltaf sett á oddinn hjá EBU,“ segir í tilkynningu frá samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva vegna málsins. Samstarfinu við ísraelska ríkisútvarpið og ísraelska herinn verði haldið áfram og öryggi allra keppenda, gesta og starfsmanna í Expo Tel Aviv-höllinni tryggt.
Þá kemur fram að fyrsti stóri Eurovision-viðburðurinn í landinu hafi verið sleginn af í fyrradag. Þar átti að koma fram Dana International, keppandi Ísraels og sigurvegari árið 1998. Ekkert varð af samkomunni vegna fyrirskipana hersins sem hefur bannað allar fjöldasamkomur.
Hljómsveitin Hatari hélt í gær sína fyrstu æfingu á keppnissviðinu í Tel Aviv og gekk hún mjög vel að sögn liðsmanna íslensku sendinefndarinnar. Meðlimir Hatara sátu einnig fyrir svörum á blaðamannafundi. Vakti sérstaka athygli að þeir sögðust vonast til þess að hernámi Ísraels í Palestínu lyki. Tók þá stjórnandi blaðamannafundarins fyrir frekari fyrirspurnir frá blaðamönnum í sal.
Hótanir gegn Eurovision
Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
