Erlent

Einn af risunum í ástralskri stjórn­mála­sögu er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Bob Hawke sló heimsmet í bjórdrykkju á námsárum sínum.
Bob Hawke sló heimsmet í bjórdrykkju á námsárum sínum. Getty
Bob Hawke, einn af risunum í ástralskri stjórnmálasögu, er látinn, 89 ára að aldri. Hann gegndi embætti forsætisráðherra landsins í níu ár, frá 1983 til 1991.

Hawke tók við formennsku í Verkamannaflokknum árið 1983 og vann flokkurinn óvæntan sigur í þingkosningunum sama ár. Hawke naut mikilla vinsælda í landinu og leiddi flokk sinn til sigurs í næstu þremur þingkosningum. Er hann sá leiðtogi Verkamannaflokksins sem lengst hefur setið í embætti forsætisráðherra.

„Ástralska þjóðin elskaði Bob Hawke þar sem hún vissi að hann elskaði hana. Sú var raunin allt til loka,“ sagði Bill Shorten, leiðtogi Verkamannaflokksins í yfirlýsingu í morgun.

Þrátt fyrir að njóta mikilla vinsælda var Bob Hawke ekki óumdeildur. Hann varð þekktur fyrir að slá heimsmet þegar hann náði að klára 2,5 glös af bjór (1,4 lítrar), eða „yard af bjór“, á ellefu sekúndum. Þá skildi hann við konu sína árið 1995 og gekk þá að eiga ástkonu sína Blanche d'Alpuget.

Bob Hawke sagði skilið við stjórnmálin árið 1992, ári eftir að hann beið lægri hlut fyrir Paul Keating sem skoraði hann á hólm í leiðtogakjöri innan Verkamannaflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×