Innlent

Vilja ræða um Hljóðbókasafn

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Blindrafélaginu líst illa á hugmyndir um breytingar á Hljóðbókasafninu.
Blindrafélaginu líst illa á hugmyndir um breytingar á Hljóðbókasafninu. Fréttablaðið/Valli
Á aðalfundi Blindrafélagsins sem haldinn var um síðastliðna helgi var hugmyndum um að Hljóðbókasafn Íslands verði lagt niður og fært undir Landsbókasafn mótmælt.

„Hljóðbókasafnið gegnir lykilhlutverki við að tryggja blindum og sjónskertum þau sjálfsögðu mannréttindi að fá notið bókmennta til jafns við aðra,“ segir í ályktun fundarins. Þar kemur fram að ítrekaðar kannanir meðal félagsmanna sýni fram á mikla ánægju með þjónustu safnsins.

Fer Blindrafélagið þess á leit við menntamálaráðherra að efnt verði til viðræðna um að félagið taki að sér rekstur Hljóðbókasafnsins.

Þá voru samþykktar ályktanir um að stjórnvöld innleiði tafarlaust tilskipun ESB um vefaðgengi og að fjögurra vikna sóttkví fyrir leiðsöguhunda verði afnumin. Sóttkvíin sé ónauðsynleg samkvæmt nýju áhættumati og skerði ferðafrelsi þeirra sem notast við leiðsöguhunda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×