Erlent

Hatari við BBC: „Fráleitt að halda keppnina í landi þar sem átök og óeining eru ríkjandi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Hljómsveitin Hatari er framlag Íslands í Eurovision í ár.
Hljómsveitin Hatari er framlag Íslands í Eurovision í ár. Eurovision
Breska ríkisútvarpið er með ítarlega úttekt á söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í ár en þar eru fulltrúar Íslands, hljómsveitin Hatari, sagðir þeir líklegustu til að valda deilum.

Í úttekt BBC er fjallað um þá umræðu sem hefur átt sér stað vegna þess að keppnin er haldin í Ísrael í ár. Hafa margir kallað eftir því að keppnin verði sniðgengin vegna framkomu yfirvalda Ísraels í garð Palestínumanna.

Reglur Eurovision banna þátttakendum að vera með pólitískan áróður í tengslum við keppnina en Hatara-menn segja í samtali við BBC að þeir hafi ákveðið að taka þátt til að beina athyglinni að þeirri pólitísku stöðu sem ríkir um Ísrael.

„Eurovison-söngvakeppnin var stofnuð með frið og sameiningu að leiðarljósi. Okkur finnst það fráleitt að halda keppnina í landi þar sem átök og óeining eru ríkjandi,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, annar af söngvurum Hatara, við BBC.

Hatara-menn segja við BBC að þeir muni virða reglur Eurovision með því að vera ekki með neinar pólitískar yfirlýsingar á meðan þeir taka þátt.

Í grein BBC er fjallað um að Eurovision sé stærsti tónleikaviðburður heims í beinni útsendingu og njóti mikilla vinsælda hjá unga fólkinu en flestir sem taka þátt í keppninni í ár eru á þrítugsaldri.

BBC bendir á að deilur Ísraels- og Palestínumanna séu ekki þær einu sem hafa ratað inn í keppnina.

Úkraínski tónlistarmaðurinn Maruv hætti við þátttöku eftir að hafa verið beðin um sverja hollustu við Úkraínu í deilu vegna yfirráða Rússa á Krímskaganum. Úkraínska ríkissjónvarpið bað hana um að hætta við að syngja á tónleikum í Rússlandi ef hún ætlaði að taka þátt í keppninni. Hún ákvað því að hætta við að taka þátt.

Einn af Eurovision-sérfræðingum BBC, Jayde Adams, segir Eurovision ekki bara söngvakeppni. „Hún er meira það. Þetta snýst um heiminn og hvar fólk passar inn í hann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×