Handbolti

Hlaðvarpsstjórnendur orðnir þjálfari og leikmaður Gróttu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Daði og Daði Laxdal semja.
Arnar Daði og Daði Laxdal semja. mynd/grótta
Grótta, sem að féll úr Olís-deild karla í handbolta í vetur, er að safna liði fyrir átökin í Grill 66-deildinni næsta vetur en það er nú búið að bæta við sig línu- og varnarmanninum Theodór Inga Pálmasyni sem uppalinn er hjá FH.

Theodór er fjall af manni og spilaði síðast með nýliðum Fjölnis í Olís-deildinni veturinn 2017/2018 en á þessari leiktíð hefur hann verið í fríi og einbeitt sér að handboltahlaðvarpinu Handkastið sem hefur notið mikilla vinsælda.

Meðstjórnandi hans í hlaðvarpsþættinum er Arnar Daði Arnarsson, 27 ára gamall uppalinn Haukamaður og fyrrverandi unglingalandsliðsmaður, sem lagði skóna snemma á hilluna og hefur þjálfað lengi hjá Val og unnið marga titla sem yngri flokka þjálfari.

Arnar Daði var einmitt ráðinn þjálfari Gróttunnar á dögunum og eru því báðir stjórnendur hlaðvarpsþáttarins mættir til Seltirninga og verða í lykilstöðum næsta vetur, Arnar á hliðarlínunni og Theodór á línunni.

Samhliða því að ráða Arnar Daða til starfa framlengdi félagið samninginn við Daða Laxdal en það er mikill styrkur fyrir Gróttu að halda honum í baráttunni í næst efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×