Innlent

Áfrýjar sex ára dómi í barnaníðsmáli

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kona mannsins hefur ekki áfrýjað dóminum yfir sér. Frestur til þess rennur út í þessari viku.
Kona mannsins hefur ekki áfrýjað dóminum yfir sér. Frestur til þess rennur út í þessari viku. Vísir/Vilhelm
Karlmaður sem sakfelldur var í Héraðsdómi Reykjaness fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur hefur áfrýjað dóminum til Landsréttar. Maðurinn hlaut sex ára fangelsisdóm en eiginkona hans var einnig sakfelld fyrir sambærileg brot. Hún hlaut fimm ára dóm. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Fréttablaðið hefur eftir Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara að konan hafi ekki enn tekið ákvörðun um hvort hún muni áfrýja dóminum yfir sér. Frestur til þess renni út í þessari viku.

Hjónin játuðu hluta brota sinna við þingfestingu málsins í nóvember á síðasta ári, en neituðu sök í öðrum ákæruliðum. Þeim var báðum gefið að sök að hafa nauðgað dóttur konunnar, fest brotin á filmu, veitt dótturinni áfengi og stundað framleiðslu á barnaníðsefni sem sýndi stúlkuna á kynferðislegan hátt.

Hjónin eru einnig ákærð fyrir að brjóta gegn yngri dóttur sinni. Brotin gegn eldri stúlkunni voru framin að þeirri yngri viðstaddri. Þá var maðurinn ákærður fyrir vopnalagabrot, vörslu barnakláms og ítrekuð brot í nánu sambandi gegn tveimur börnum sínum, syni og dóttur, með því að rassskella þau ítrekað yfir sjö ára tímabil.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×