Handbolti

Best að hugsa þetta bara sókn fyrir sókn

Hjörvar Ólafsson skrifar
Landslið kvenna.
Landslið kvenna. mynd/fréttablaðið
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir í kvöld Spáni í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Japan í desember næstkomandi. Leikurinn hefst klukkan 19.45 í Laugardalshöllinni.

Ísland laut í lægra haldi, 35-26, fyrir Spáni í fyrri leiknum og þar af leiðandi er ljóst að róðurinn verður þungur við að tryggja sér farseðilinn til Japans. Byrjun íslenska liðsins í fyrri leiknum reyndist banabitinn. Spænska liðið lék við hvurn sinn fingur framan af og leiddi með fjórtán mörkum í hálfleik áður en íslenska liðinu tókst að laga stöðuna í seinni hálfleiknum.

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, segir leikmenn átta sig á því hvað fór úrskeiðis í fyrri leiknum í Malaga og að stefnan sé að gera mikið betur að þessu sinni.

„Ég horfði á leikinn strax eftir leikinn í Malaga og sá um leið hvað við getum gert betur. Við vorum með gott leikplan og fyrstu 15 mínúturnar vorum við að fylgja því plani og það vantaði bara herslumuninn í sóknaraðgerðunum. Við vorum að klúðra fínum færum og skjóta illa á Silviu Navarro í spænska markinu,“ segir Karen í samtali við Fréttablaðið.

„Við hættum svo að fara eftir því sem við lögðum upp með fyrir leikinn síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiksins og spænska liðið refsaði okkur grimmilega. Spænska liðið er vissulega sterkt lið en mér finnst þetta ekki vera getumunurinn á liðunum. Við getum klárlega unnið þær og stefnum á að gera það,“ segir hún enn fremur.

„Til þess að vinna upp svona stórt forskot þarf blöndu af áræðni og þolinmæði. Við þurfum að taka eina sókn í einu og vera ekkert að pæla of mikið í hver staðan er fyrr en undir lok leiksins. Það myndi gefa okkur styrk og orku að fá góðan stuðning og vonandi verður fjölmennt í Höllinni,“ segir leikstjórnandinn Karen um komandi verkefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×