Skoðun

Fólkinu fylgt

Davíð Þorláksson skrifar
Það var sérstakt hvernig könnun sem MMR gerði um afstöðu til 3. orkupakkans var kynnt í byrjun maí. Því var haldið fram að hún sýndi að helmingur landsmanna væri á móti honum og um 30% hlynnt. Hið rétta er að 36% eru andvíg, 21% hlynnt og 43% tóku ekki afstöðu. Fyrrnefndu tölurnar fást ef bara er skoðuð afstaða þeirra sem tóku afstöðu. Þetta sýnir að flestum er sama um 3. orkupakkann sem kemur ekki á óvart. Það má þá hins vegar deila um það hversu skynsamlegt það er þá af manni að vera að skrifa í þriðja skipti Bakþanka um 3. orkupakkann.

Af þeim sem taka afstöðu er fleira stuðningsfólk stjórnarflokkanna andvígt en hlynnt 3. orkupakkanum. Sumir hafa notað þessa niðurstöðu sem rök fyrir því að stjórnarflokkarnir séu á rangri leið. Í því samhengi er mikilvægt að átta sig á því að stjórnmálaleiðtogar sem vilja láta taka sig alvarlega eiga ekki að elta almenningsálitið, heldur að móta það. Ekki að fylgja kjósendum, heldur fá kjósendur til að fylgja sér.

Hlutverk stjórnmálaleiðtoga er að sannfæra sem flesta um að grunngildi þeirra séu best til að búa til betra samfélag. Það er enginn vafi á því að íslenskt samfélag er betra vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hluti af því að standa vörð um hana er að klára innleiðingu 3. orkupakkans. Röksemdafærsla andstæðinga orkupakkans minnir á tilvitnun sem stundum er eignuð franska stjórnmálamanninum Alexandre Auguste Ledru-Rollin: „Ég verð að fylgja fólkinu, því ég er leiðtogi þess.“




Skoðun

Sjá meira


×