Það var tannlæknirinn María Elíasdóttir sem birti myndir af þessum náttúruspjöllum í gær en þar höfðu óprúttnir aðilar gert sér að leika að krafsa nöfn og útlínur getnaðarlima í linan jarðveg Helgafells.
Þar má nú sjá nöfnin Badda, Geira, Stebba, Daða og Ara og ókvæðisorð látin fylgja með sem skreytt eru með teikningum af limum og meðfylgjandi.
Björn segir Umhverfisstofnun ætla að taka daginn í dag til að bregðast við og munu frekari upplýsingar fást frá stofnuninni á morgun en ljóst sé að um mikinn skaða sé að ræða og það geti tekið umtalsverðan tíma fyrir ummerkin að mást af.
María var á göngu upp Helgafellið í gærmorgun þegar hún rakst á þessi skemmdarverk sem hún segir hafa verið frekar nýleg. Hún segir þetta krafs sjást vel úr fjarska og að skemmdarverkin hafi verið unnin um tíu metra frá stígnum upp Helgafellið. Stærstu stafirnir séu á stærð við A4 blað en teikningarnar af getnaðarlimunum mjög líklega þrír metrar að stærð.
Hún segist í samtali við Vísi vonast til að þeir sem gerðu þetta finnist og að þeir fái skammir í hattinn svo þeir geri þetta ekki aftur. Allir geti gert mistök sem krakkar en mikilvægt sé að sem flestum sé komið í skilning um að svona gera menn ekki.