Innlent

Ráðuneytið snýr við ákvörðun Fiskistofu vegna Kleifabergs

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Útgerðarfyrirtækið Brim kærði ákvörðun Fiskistofu vegna Kleifabergsins.
Útgerðarfyrirtækið Brim kærði ákvörðun Fiskistofu vegna Kleifabergsins. Vísir
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Fiskistofu að svipta skipið Kleifaberg RE-70 veiðileyfi vegna meints brottkasts. Ráðuneytið úrskurðar jafnframt að Fiskistofu hafi borið að rannsaka betur hvort um eignarspjöll hafi verið að ræða fremur en brottkast í myndskeiði frá árinu 2016.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu en Fiskistofa svipti Kleifaberg leyfi til veiða í atvinnuskyni í þrjá mánuði frá og með 4. febrúar síðastliðnum vegna brottkasts. Fiskistofa byggði ákvörðun sína á grundvelli fimm innsendra myndskeiða. Fjögur myndskeiðanna voru frá árinu 2008 og 2010 og eitt frá árinu 2016.

Í ljósi þess hve langur tími leið frá meintum brotum, átta til tíu ár, þar til kæranda var tilkynnt um að málið væri til meðferðar hjá Fiskistofu taldi ráðuneytið að það væri í andstöðu við stjórnsýslulög að beita viðurlögum vegna meintra brota. Ráðuneytið felldi því ákvörðun Fiskistofu úr gildi í tilfelli brotanna frá 2008 og 2010. Þá felur ráðuneytið Fiskistofu að rannsaka nýjasta myndbandið aftur.


Tengdar fréttir

Fiskistofu skortir heimildir til að þvinga fram gögn frá Hval

Fiskistofa hefur ekki fengið allt að fimm ára gamlar dagbækur skipstjóra hvalveiðiskipa Hvals hf. vegna veiða á rúmlega 400 stórhvelum. Fiskistofustjóri segist ekki geta beitt fyrirtækið þvingunarúrræðum vegna skorts á lagaheimildum.

Ráðuneytið hefur leyst landfestar Kleifabergs

Réttaráhrifum veiðileyfasviptingu Kleifabergs RE-70 hefur verið frestað til 15. apríl næstkomandi á meðan unnið er úr kæru Brims á ákvörðun Fiskistofu. Andmælaréttur fyrirtækisins ekki virtur. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×