Körfubolti

Þetta eru félögin sem eiga möguleika á að fá Kawhi Leonard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard í leik á móti Golden State Warriors í lokaúrslitum NBA 2019.
Kawhi Leonard í leik á móti Golden State Warriors í lokaúrslitum NBA 2019. Getty/Kyle Terada-Pool
Kawhi Leonard er eftirsóttasti leikmaðurinn á leikmannamarkaði NBA í sumar enda nýbúinn að leiða Toronto Raptors liðið til sigurs í NBA-deildinni.

Leonard er með lausan samning og getur því samið við það lið sem hann vill. Svo gæti farið að Toronto Raptors hafi hann bara í eitt tímabil.

Toronto Raptors getur boðið Kawhi hæsta samninginn en það hefur lengi verið talað um að Leonard vilji helst spila í Los Angeles. Nú eru fleiri lið hins vegar á borðinu.  

Bandarískir fjölmiðlamenn eru að sjálfsögðu mikið að velta fyrir sér næstu skrefum Kawhi Leonard og í gær skýrðist betur við hvaða félög þessi öflugi leikmaður ætlar að tala við.

Nýjustu fréttirnar eru nefnilega að Kawhi Leonard vilji ekkert heyra í fulltrúum Dallas Mavericks liðsins. Hér fyrir neðan má sjá menn ræða næstu skref í Undisputed þætti Skip og Shannon á Fox Sports 1.





Chris Broussard er á kafi í þessum málum og fór betur yfir það sem hann hefur heyrt af áætlunum Kawhi Leonard í næstu viku.

Samkvæmt því ætlar Kawhi Leonard að ræða við New York Knicks, bæði Los Angeles liðin og mögulega Philadelphia 76ers. Samkvæmt Broussard eru töluverðar líkur á því að Leonard fari frá Toronto Raptors.

Kawhi Leonard er enn bara 27 ára gamall og hann hefur þegar unnið NBA-titilinn með tveimur félögum, San Antonio Spurs (2014) og Toronto Raptors (2019) en í bæði skiptin var hann kosinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna.

Kawhi Leonard skoraði 30,5 stig að meðaltali í leik með Toronto Raptors í úrslitakeppninni í ár og á ferlinum hefur hann skorað mun fleiri stig í leik í úrslitakeppni (19,6) heldur en í deildarkeppni (13,3). Það fer því ekkert á milli mála að kappinn kann vel við sig á stærsta sviðinu.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×