Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra Reykjavíkur í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar ræddi hann hina nýju íbúabyggð en skrifað var undir samkomulag um uppbygginguna í dag.
Á svæðinu þar sem uppbyggingin verður á að breyta iðnaðarhverfi í blandaða byggð fyrir íbúðir, þjónustu og almenna atvinnustarfsemi á næstu árum. Gert er að ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2021.
Inntur eftir því hvort að fyrirtækin sem standa nú þegar á svæðinu myndu víkja fyrir íbúðum og annarri starfsemi sagði Dagur að sú væri stefnan að hluta til.
„Að hluta til búumst við við því en fyrstu áfangarnir verða ekki síst á svæðum sem hafa í raun verið að bíða eftir uppbyggingu.“

„Þetta verður blönduð byggð. Við gerum ráð fyrir talsverðri atvinnustarfsemi þarna áfram, þannig að hún þarf ekki öll að fara. En við gerum ráð fyrir því, af því að þarna fer borgarlínan yfir og við erum með nýjar lausnir í samgöngumálum, að þá megi byggja svolítið þétt og skemmtilega,“ sagði Dagur.
„Það er mjög mikil veðursæld þarna og fallegt útsýni yfir sundin.“
Stefnt er að því að deiliskipulag verði kynnt í haust og framkvæmdir hefjist jafnvel á næsta ári. Byggðar verða allt að 5900 íbúðir og í hverfinu verði að finna alla helstu þjónustu.
„Þetta er svona eitt stykki Garðabær,“ sagði Dagur. „Það er gert ráð fyrir fjórum skólum á svæðinu og auðvitað enn fleiri leikskólum. Við höfum ekki útilokað að það gæti komið nýtt húsnæði fyrir framhaldsskóla. Ef Tækniskólinn ætlar að sameinast undir eitt þak, þá gæti það verið á svæðinu.“
Viðtalið við Dag má hlusta á í heild í spilaranum hér að neðan.