Körfubolti

Nýtt súperstjörnulið NBA deildarinnar orðið til hjá Brooklyn Nets

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Kyrie Irving eru góðir vinir og vildu spila saman.
Kevin Durant og Kyrie Irving eru góðir vinir og vildu spila saman. Getty/ Kevin Mazur
NBA stórstjörnurnar Kevin Durant og Kyrie Irving semja báðir við Brooklyn Nets  þegar þeir mega skrifa undir samninga á laugardaginn kemur.

Brooklyn Nets var sigurvegari næturinnar í NBA-deilarinnar þótt enginn leikur hafi farið fram. Nets fékk nefnilega til sín tvo af heitustu bitunum á leikmannamarkaði deildarinnar.





Stórstjörnurnar Kevin Durant og Kyrie Irving ætla að spila saman næstu árin og þeir völdu Brooklyn Nets frekar en önnur félög sem buðu þeim gull og græna skóga.

Brooklyn Nets fullkomnaði síðan þrennuna þegar miðherjinn DeAndre Jordan samþykkti einnig að spila með liðinu en Kevin Durant og Kyrie Irving „hjálpuðu“ aðeins til með því að taka minni pening til að búa til pláss fyrir Jordan undir launaþakinu.





Það var búið að leika út að Kyrie Irving ætlaði til Brooklyn Nets og Kevin Durant tilkynnti það síðan í gær að það verði líka hans lið þegar hann nær sér af meiðslunum.

Kevin Durant mun væntanlega skrifa undir fjögurra ára samning og fá fyrir það 164 milljónir dollara. Kyrie Irving gerir einnig fjögurra ára samning og fær fyrir hann 141 milljón dollara.

Durant og Irving fá samt báðir um fimm milljónir dollurum minna á hverju ári en þeir hefðu getað fengjð hjá Nets. Það gera þeir svo hægt væri að fá DeAndre Jordan sem mun einnig gera fjögurra ára samning við Brooklyn Nets og fá fyrir það 40 milljónir dollara.

Kevin Durant og Kyrie Irving gætu hins vegar unnið þetta upp í bónusum gangi Brooklyn Nets liðinu vel.

Liðið verður þó án Kevin Durant  fyrsta tímabilið því hann mun ekkert spilað 2019-20. Durant sleit hásin í úrslitakeppninni í júni og notar næsta árið í að ná sér aftur góðum. Liðið spilar því ekki af fullum styrk fyrr en 2020-21 tímabilið en samnigur þeirra félaga nær út 2022-23 tímabilið.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×