Innlent

Týr sótti veikan mann um borð í farþegaskip

Kjartan Kjartansson skrifar
Tveir menntaðir sjúkraflutningamenn eru að jafnaði um borð í varðskipinu Tý. Myndin er úr safni.
Tveir menntaðir sjúkraflutningamenn eru að jafnaði um borð í varðskipinu Tý. Myndin er úr safni. Fréttablaðið/Vilhelm
Sjúkraflutningamenn um borð í varðskipinu Tý sóttu veikan mann um borð í farþegaskip norðaustur af horni í nótt. Ekki var hægt að senda þyrlu eftir manninum og var varðskipið í staðinn sent til móts við farþegaskipið.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að farþegaskipið hafi haft samband við stjórnstöð Gæslunnar skömmu fyrir miðnætti og óskað eftir að eldri maður með mögulega heilablæðingu væri sóttur og komið undir læknishendur í landi.

Týr var staddur á Vestfjarðarmiðum og var sendur til móts við skipið þar sem ekki var mögulegt að senda þyrlu. Björgunarskipið Gísli Jónsson frá Ísafirði var stefnt til móts við varðskipið með lækni og sjúkraflutningamann frá Ísafirði.

Varðskipið komst að farþegaskipinu skömmu fyrir klukkan tvö í nótt. Týr kom með sjúklinginn til Ísafjarðar skömmu fyrir klukkan sex í morgun. Hann verður sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×