Aðeins tæpur fimmtungur fyrrverandi starfsmanna WOW air sem fór á atvinnuleysiskrá þegar flugfélagið féll í apríl hefur fengið atvinnu. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir þetta of lágt hlutfall en það skýrist af litlu vinnuframboði og einsleitum starfsmannahópi. Hún telur að ástandið gæti skánað með haustinu.
Um þúsund manns misstu vinnuna þegar flugfélagið WOW air féll þann fyrsta apríl síðastliðinn. Nokkur hluti þeirra virðist hafa fengið atvinnu strax því hópurinn skráði sig ekki allan á atvinnuleysiskrá að sögn Unnar Sverrisdóttur forstjóra Vinnumálastofnunar.
„Það sóttu um rúmlega um 780 manns hjá okkur fyrsta apríl og enn eru 608 án atvinnu sem að okkur finnst ansi mikið.“
Hún segir fólk búið að leita mikið.
„Þetta fólk er í stöðugri atvinnuleit en þetta er stór hópur með svipaðan bakgrunn og kannski ekki svo mörg störf í boði en við sjáum hvað setur þegar líður á haustið.“
Unnur segir misskilning að í hópnum séu hjúkrunarfræðingar.
„Það er ekki einn hjúkrunarfræðingur í hópnum og koma aldrei inn í hópinn þannig að þetta var einhver saga sem kom upp og það er heldur ekki kennari í hópnum ef mig misminnir ekki.“
Atvinnuleysi í maí mældist 3,6 prósent samanborið við 2,2 prósent atvinnuleysi á sama tíma í fyrra. Unnur segir um augljósan samdrátt milli ára og framboð á störfum sé mun minna en áður en sér þó fram á bjartari tíma.
„Ég held að þetta sé alveg eðlileg sveifla og hlutirnir snúist við alveg á næsta ári.“

