Sport

Tvö heimsmet Phelps slegin á síðustu þremur dögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dressel fagnar heimsmetinu í 100 metra flugsundi.
Dressel fagnar heimsmetinu í 100 metra flugsundi. vísir/getty
Tvö tíu ára gömul heimsmet Michaels Phelps hafa verið slegin á síðustu þremur dögum á HM í 50 metra laug í Gwangju í Suður-Kóreu.

Á miðvikudaginn sló Kristóf Milák, 19 ára Ungverji, heimsmet Phelps í 200 metra flugsundi um 78 hundraðshluta úr sekúndu.

Í dag sló Caeleb Dressel svo heimsmet Phelphs í 100 metra flugsundi.

Dressel, sem er 22 ára Bandaríkjamaður, synti á 49,50 sekúndum í undanúrslitunum í 100 metra flugsundi og bætti heimsmet Phelps um 32 hundraðshluta úr sekúndu. Dressel var langt á undan næsta manni, Andrey Minakov, sem synti á 50,94 sekúndum og setti rússneskt met.

Dressel og Phelps þekkjast vel en þeir saman unnu þeir til tvennra gullverðlauna í boðsundi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Dressel vann til sjö gullverðlauna á HM í 50 metra laug í Búdapest í Ungverjalandi fyrir tveimur árum, þ.á.m. í 100 metra flugsundi. Þá synti hann á 49,86 sekúndum í úrslitunum. Dressel og Phelps eru einu sundmennirnir sem hafa unnið sjö gullverðlaun á einu heimsmeistaramóti.

Dressel er þegar búinn að vinna til þrennra gullverðlauna á HM 2019; í 50 metra flugsundi, 100 metra skriðsundi og 4x100 metra skriðsundi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×