Tilefni undirskriftalistans, sem Stundin greindi fyrst frá í dag, er hitafundur Pírata sem haldinn var þann 15. júlí síðastliðinn. Þar fór Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata ófögrum orðum um Birgittu, sem sóttist eftir sæti í trúnaðarráði flokksins en var hafnað. Þá var Halldóra Mogensen þingmaður Pírata einnig á meðal þeirra sem beittu sér gegn skipun Birgittu í trúnaðarráðið.
Fleiri Píratar stigu fram í kjölfarið og lýstu samskiptum sínum við Birgittu. Ásta Guðrún Helgadóttir, sem sat á þingi fyrir flokkinn frá 2015 til 2017, sagði Birgittu til að mynda af beitt samstarfsfólk sitt andlegu ofbeldi. Sara Elísa Þórðardóttir varaþingmaður Pírata lýsti því jafnframt í viðtali við Stundina að Birgitta hefði komið óheiðarlega fram við samstarfsfólk og Píratar verið meðvirkir gagnvart henni of lengi.
Sjá einnig: Ásta Guðrún lýsir samstarfinu við Birgittu: „Hinn frekasti fékk að ráða“
Í yfirlýsingu með undirskriftalistanum, sem 43 hafa skrifað undir þegar þetta er ritað og birtur er undir yfirskriftinni „Ekki í mínu nafni“, segir að undirritaðir harmi þá atburðarás sem varð á umræddum fundi í júlí. Hin „opinbera aðför“ sem Birgitta hafi orðið fyrir af valdafólki innan flokksins sé með öllu ólíðandi.
„Þingmenn Pírata og annað valdafólk innan flokksins sem tóku til máls á fundinum fóru offari gegn einum félagsmanni. Sú opinbera aðför, óháð því hvaða stöðu umræddur félagsmaður gegndi áður og hvað kann að hafa farið aðila á milli fyrr, er með öllu ólíðandi. Öllum skal sýnd kurteisi og virðing, sérstaklega þegar rætt er um og/eða talað til ákveðinna einstaklinga,“ segir í yfirlýsingunni.
„Framkoma þeirra sem fóru offari á fyrrnefndum fundi er ámælisverð, engum til gagns, og ber að fordæma.Þá skyldi ekki líta hjá stöðu þeirra sem um ræðir, en það traust sem fulltrúum grasrótar á Alþingi er falið er ekki sjálfsagður hlutur og bíður eðlilega hnekki, innan hreyfingarinnar sem utan, þegar komið er fram með þessum hætti.“

Ekki stuðningsyfirlýsing við Birgittu
Á meðal þeirra sem skrifa undir yfirlýsinguna er áhrifafólk innan Pírata. Þar má nefna Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur fyrrverandi varaþingmann, Þórólf Júlían Dagsson, oddvita Pírata í Reykjanesbæ, og Álfheiði Eymarsdóttur, varaþingmann Pírata í Suðurkjördæmi.Álfheiður segir í samtali við Vísi að hún hafi litlu við málið að bæta sem ekki kemur þegar fram í yfirlýsingunni.
„Ég held að þetta sé hófsöm birtingarmynd óánægju með framgöngu ákveðinna einstaklinga á fundinum.“
Hún segist ekki líta á sig sem sérstaka stuðningskonu Birgittu.
„Þetta er ekki stuðningsyfirlýsing við Birgittu. Þetta er óánægja með framgöngu ákveðinna einstaklinga á opinberum fundi í garð persónu einstaks félagsmanns í Pírötum,“ segir Álfheiður.
Fréttin hefur verið uppfærð.