Óhapp varð þegar einshreyfils flugvél kom til lendingar á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum á sjötta tímanum í gær. Vélin snerist í lendingunni og stöðvaðist á hvolfi á jörðu niðri. Flugmaðurinn var einn í vélinni en varð ekki meint af, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi.
Flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa var gert viðvart og hefur málið nú á sinni könnu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gekk maðurinn óstuddur frá slysinu og tilkynnti um það sjálfur. Ekki er vitað um tjón á flugvélinni en Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi gerði ráð fyrir að vélin væri töluvert skemmd.
Fréttin hefur verið uppfærð.
