McIntyre, sem nú er nítján ára, var aðeins sautján ára þegar hann framdi morðið ásamt sex mönnum, sem einnig voru dæmdir fyrir verknaðinn. Sjömenningarnir réðust inn á heimili Ethan Walker í borginni Mansfield í Texas í júlí árið 2016 og hugðust ræna hann. Það fór á endanum svo að Walker var skotinn til bana.
Lögmenn McIntyre byggðu mál sitt m.a. á því að hann hefði ekki tekið í gikkinn og sjálfur sagðist rapparinn aðeins hafa verið á staðnum til þess að leita uppi eiturlyf á heimilinu og stela þeim. Hann var hins vegar fundinn sekur um morð og vopnað rán.
Rappferill McIntyre blómstraði í takt við umfjöllun um morðákæruna og málaferlin sem fylgdu í kjölfarið. Hann var úrskurðaður í stofufangelsi en árið 2017 lagði hann á flótta, sem hann tilkynnti jafnframt um á Twitter-reikningi sínum með orðunum: „fuck dis house arrest shit … they gn hav 2 catch me“, sem á íslensku gæti útlagst sem: „Þetta stofufangelsi má fara til fjandans – þeir verða að ná mér.“
Saksóknarar spiluðu myndbandið við réttarhöldin í viðleitni til að sýna fram á sekt McIntyre en í því má m.a. sjá rapparann fyrir framan veggspjald, þar sem lýst er eftir honum, og þá var farið yfir texta lagsins með kviðdómnum.
Lögregla hafði hendur í hári rapparans í júní árið 2017. Hann er sakaður um að hafa myrt annan mann, hinn 23 ára Mark Saldivar, og lamið og rænt annan, hinn 65 ára Owney Pepe, þegar hann var á flótta.