Forsvarsmenn álversins í Straumsvík hafa boðað til fundar með starfsfólki álversins klukkan 11:15 í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála. Ljósbogi myndaðist í einu keri álversins um helgina.
Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi segir í samtali við fréttastofu að starfsmenn verði upplýstir um stöðuna og næstu skref á fundinum. Átján ker eru enn úti í kerskálum eitt og tvö en slökkt var á öllum kerskála þrjú vegna ljósbogans.
Rannveig Rist forstjóri álversins í Straumsvík sagði í gær að ljósboginn hefði myndast inni í kerinu en ekki á milli kersins og einhvers annars. Sjálfvirkur ljósbogavarnarbúnaður hafi slegið út rafmagni til kersins á örfáum sekúndubrotum. Starfsfólk hafi þó aldrei séð ljósboga af þessu tagi áður og því ekki tekin nein áhætta í öryggismálum.
Þá hafi álverið þurft að reiða sig á annað súrál en notað er venjulega undanfarin misseri. Nýtt súrál, sem álverið er vant að nota, er þó komið til landsins og mun framleiðsla hefjast með því á næstunni.
