Fótbolti

Gareth Bale skoraði fyrir Real Madrid á móti Arsenal í nótt: „Það breytir engu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale eftir leikinn í nótt.
Gareth Bale eftir leikinn í nótt. Getty/Matthew Ashton
Real Madrid vann Arsenal í vítakeppni í nótt eftir að liðin höfðu gert 2-2 jafntefli í International Champions Cup æfingarmótinu en leikurinn fór fram í Maryland í Bandaríkjunum.

Gareth Bale fékk sínar fyrstu mínútur með Real Madrid á undirbúningstímabilinu þegar hann kom inn á í seinni hálfleik og sá velski skoraði mark.

„Hann stóð sig vel og ég er ánægður fyrir hans hönd,“ sagði Zinedine Zidane, þjálfari Real Madrid sem vill losna við Bale úr Real Madrid. Þessi frammistaða eða markið mun ekki hafa nein áhrif á framtíð Bale hjá Real Madrid.

„Það breytir engu. Ekkert hefur breyst og þið þekkið stöðuna,“ sagði Zidane.





Arsenal komst í 2-0 í leiknum með mörkum frá þeim Alexandre Lacazette og Pierre-Emerick Aubameyang en Real Madrid var manni færri frá níundu mínútu þegar Nacho fékk rautt spjald.

Það varð jafnt í liðum á 40. mínútu þegar Grikkinn Sokratis hjá Arsenal fékk líka að líta rauða spjaldið.

Eden Hazard var í byrjunarliði Real Madrid en þeir Bale og Marco Asensio skoruðu mörk spænska liðsins og jöfnuðu á fyrstu fimmtán mínútunum í seinni hálfleik.

Gareth Bale klikkaði í vítaspyrnukeppninni sem Real Madrid vann þá 3-2. Granit Xhaka, Nacho Monreal og Robbie Burton klikkuðu hjá Arsenal liðinu.

Leon Goretzka tryggði Bayern München 1-0 sigur á AC Milan í International Champions Cup æfingarmótinu en markið skoraði hann á þriðju mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Atlético Madrid vann síðan Guadalajara 5-4 í vítakeppni eftir að liðin gerðu markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×