Norðaustlæg átt verður áfram ríkjandi á landinu í dag og eru víða sagðar líkur á síðdegisskúrum. Á austanverðu landinu þar sem er rigning og súld á að draga úr úrkomu á morgun en annars er litlum breytingum spáð á veðrinu.
Lægðasvæði fyrir suðaustan og austan landið veldur norðaustlægri átt um 3-10 metrum á sekúndu í dag, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Á Breiðafirði og Vestfjörðum er gert ráð fyrir björtu veðri en í öðrum landshlutum eru líkur á síðdegisskúrum. Hitinn á að vera á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast vestantil en svalast við austurströndina og á annesjum norðanlands.
Áframhaldandi norðaustanátt er spáð á þriðjudag, skýjuðu og þurru veðri á norðanverðu landinu en síðdegisskúrum á við og dreif syðra.
